Nýtt! Gengið mót hækkandi sól – gönguhópur og fræðsla

Gönguhópur var starfræktur nú í haust á Akureyri undir nafninu „Gengið gegn streitu.“ Þar voru róleg ganga, útivera og núvitundaræfingar vettvangur þess að vinna gegn neikvæðum áhrifum streitu ásamt því að auka félagslega og líkamlega virkni.

Upplifun þátttakenda og leiðbeinenda af göngunum var jákvæð og í takti við niðurstöður nýrra rannsókna sem benda til þess að núvitund sem stunduð er úti í náttúrunni hafi jákvæð sálræn, líkamleg og félagsleg áhrif.

Nú mun aftur verða gengið af stað á nýju ári undir nafninu „Gengið mót hækkandi sól” sem vísar ekki einungis til hækkandi sólar á himni heldur einnig í sál og sinni. Námskeiðið er á vegum Sálfræðiþjónustu Norðurlands. Umsjón er í höndum Ingu Dagnýjar Eydal hjúkrunarfræðings. Kristín Elva Viðarsdóttir sálfræðingur mun koma að fræðslu í upphafi námskeiðs og gestaleiðbeinendur munu ganga með hópnum í einhverjum tilvikum.

Inga Dagný er hjúkrunarfræðingur með víðtæka starfsreynslu. Hún hefur diplómagráðu í menntunarfræðum og hefur um árabil unnið sem stundakennari við fullorðinsfræðslu hjá Símey. Hún þekkir veikindi af völdum streitu af eigin reynslu og hefur þannig bæði persónulegan og faglegan áhuga á málefninu, ekki hvað síst forvörnum og því að koma í veg fyrir að streita þróist í það að verða sjúkleg. Netfang Ingu er inga@salfraedithjonusta.is

Núvitundaræfingar og fræðsla um núvitund og streituvarnir eru hluti af gönguferðum og útiveran nýtt til að verjast neikvæðum afleiðingum streitu. Þáttakendur þurfa að geta gengið úti í um klukkutíma með einhverjum hléum en að öðru leyti eru ekki kröfur um líkamlegt atgervi. Hægt er að færa tímana inn í húsnæði Sálfræðiþjónustunnar ef veður eða færð hamla útivist.

Námskeiðin eru 10 vikur í senn og gengið er einu sinni í viku. Nánari dagsetningar verða auglýstar síðar.