Hópmeðferðir

Nýtt!

Sálfræðiþjónusta Norðurlands kynnir nýtt hópúrræði fyrir þá sem vilja nýta sér félagslegan stuðning og samveru í baráttu gegn streitu, einmannaleika og tilfinningavanda s.s. depurð eða kvíða.

Hópurinn er öllum opinn en hentar best þeim sem eru 25 ára og eldri. Annarsvegar verða fundir tvisvar í mánuði, þar sem þátttakendur spjalla saman og fá fræðslu um streituvarnir, núvitundaræfingar eða slökun. Hinsvegar verða óformlegri hittingar s.s. á kaffihúsi eða í gönguferðum eftir áhuga þátttakenda. Ekki er skilyrði að þátttakendur séu í viðtölum eða öðrum úrræðum hjá Sálfræðiþjónustu Norðurlands.

Inga Dagný Eydal hjúkrunarfræðingur leiðir hópinn.

Verð: 5000kr. á mánuði. Hópurinn hefur starfsemi um miðjan febrúar ef næg þátttaka fæst og mun starfa til vors.

____

 

Nýtt! Gengið mót hækkandi sól- gönguhópur og fræðsla; Í álagsumhverfi getur verið nauðsynlegt að staldra við, hægja á tilverunni og jafnvel að huga að nýjum áherslum. Inga Dagný Eydal hjúkrunarfræðingur mun leiða hópinn. Kristín Elva Viðarsdóttir sálfræðingur hittir hópinn einnig í fyrsta tíma. Tilgangurinn er að auka ánægju og slökun og draga þannig úr álagsáhrifum. Áhersla er á útiveru, samveru og virkni og unnið með núvitund og slökun. Gangan er róleg og brotin upp með núvitundarþjálfun og fræðslu og snýst því ekki síður um hugrækt en líkamlega þjálfun. Hægt er að vinna með hópnum inni ef veður eða færð hamla útiveru.

Hópurinn er öllum opinn en fjöldi er takmarkaður.

Verð: 30.000kr.  fyrir 10 skipti og eru öll námskeiðsgögn innifalin.

____

Streita, kulnun, örmögnun – heilsulausnir og uppbygging; Úrræði sem hentar þeim sem eru að takast á við streitu, álag, örmögnun eða kulnun. Fræðsla um streitu, kulnun og örmögnun og áhrif til lengri tíma á heilsu. Fræðsla og greining streituvalda, styrkleika og veikleika í þeim tilgangi að efla getu til sjálfshjálpar og til að sinna daglegu lífi og starfi. Unnið er með leiðir til að forðast streituástandið og draga úr neikvæðum afleiðingum þess. Áhersla er á jafningjastuðning og umræður,  virkni, útiveru og samveru. Úrræðið miðast við að styrkja einstaklinginn í endurhæfingarferli sínu með það að leiðarljósi að efla möguleika á endurkomu til vinnu.

Námskeiðið er árangursmælt. Teymisvinna fagmanna. Stjórnandi Sigrún V. Heimisdóttir, sálfræðingur, Dagný Linda Kristjánsdóttir, iðjuþjálfi.

Tímalengd: 12 skipti. Fyrstu vikurnar er áhersla á fræðslu og sjálfsskoðun og smátt og smátt eykst vægi hreyfingar og virkni. Tímar eru 2x í viku í 1-1,5-klst. í senn, alls um 18 klst.

Verð: 84.000kr.

____

Sjálfsstyrking; Námskeiðið hentar flestum sem vilja efla sjálfstraust. Unnið er út frá hugmyndafræði HAM og áhersla á sjálfsþekkingu og stjórn á eigin hugsunum og viðbrögðum.  Unnið með sjálfstraust og trú á eigin getu í þeim tilgangi að bæta færni í daglegu lífi, líðan og lífsgæði. Ef tilfinningavandi er alvarlegur er mikilvægt að viðkomandi hafi tök á einstaklingsviðtölum samhliða, á undan eða í kjölfar úrræðis.  Tímar sem flestir geta nýtt sér til sjálfseflingar.

Námskeiðið er árangursmælt. Stjórnandi Regína Ólafsdóttir ásamt fagaðilum Sálfræðiþjónustu Norðurlands.

Tímalengd: 8 skipti, 1,5  klst. í senn, alls um 12 klst.

Verð: 64.000kr.

____

Að ná tökum á eigin þyngd með aðferðum sálfræðinnar; Námskeið fyrir fólk í ofþyngd eða offitu sem vill ná langtímaárangri í baráttu sinni við aukakílóin. Einstaklingum er kennt að setja sér raunhæf markmið og að ná sátt við líkama sinn þegar ákveðnum árangri er náð. Einnig eru kynntar leiðir til að viðhalda árangri.  Þetta er ekki megrunarkúr. Kynntar verða aðferðir sem hjálpa fólki að ná jákvæðum tengslum við mat og farið verður yfir hvernig sálfræðin getur komið með verkfæri og aðferðir sem hjálpa fólki í þessari baráttu. Einnig verður farið yfir hvernig best er að viðhalda árangri en það er oft eitthvað sem margir eiga í erfiðleikum með. Hugræn atferlismeðferð, núvitund, markmiðasetning, jákvætt sjálfstal, fræðsla um mögulegar orsakir offitu er kynnt auk þess sem unnið er með þarfir hvers og eins, t.d. eflingu sjálfstrausts, seiglu, þrautseigju og rýnt er í grunninn að vandanum. Skoðað er hvenær vandinn byrjaði, hvort það tengist einhverju sérstöku og hvað hefur verið reynt hingað til, til þess að ná árangri. Unnið er með það að breyta heilsutengdum venjum og hegðun þannig að árangur náist.  Ýmis hagnýt atriði eru einnig kynnt eins og hverjum og einum verður hjálpað að finna þá hreyfingu sem hentar best og er fólki boðið að fara í fyrsta tíma á líkamsræktarstöð með viðkomandi þar sem fólk treystir sér stundum ekki á staðinn. Einnig munu einstaklingar halda matardagbók þar sem fram kemur hvað er borðað og hvenær en inn í þá matardagbók er einnig skráð líðan og aðstæður sem borðað er í.

Stjórnandi Kristín Elva Viðarsdóttir sálfræðingur, aðrir koma að námskeiðinu með sérþekkingu á ákveðnum sviðum.

Tímalengd: 13 tímar og eru ýmist einu sinni til tvisvar í viku. Námskeiðið byrjar með einstaklingsforviðtali þar sem líðan er metin.

Verð: 84.000 kr.

___

Félagsfælni; Sérhæft úrræði fyrir þá sem eru með félagsfælni. Kenndar eru áhrifaríkar aðferðir til að takast á við félagsfælni og kvíða í félagslegum samskiptum. Í tímum lærir fólk inn á hvað veldur þeim kvíða, það lærir að takast á við það sem veldur kvíðanum og um leið lærir það að stjórna og breyta neikvæðum hugsunum. Unnið er með atferlistilraunir þar sem tekst er á við óttann í raunverulegum aðstæðum. Þó áherslan sé að mestu á kvíðavinnu er auk þess komið inn á félagsfærni, sjálfstraust og margt fleira sem snýr að mannlegum samskiptum. Markmiðið með námskeiðinu er að hjálpa einstaklingum að draga úr kvíða sínum með það að markmiði að auka lífsgæði og efla getu til að takast á við verkefni í dagslegu lífi sem og í starfi. Það dregur úr einangrun og bætir líðan.

Námskeiðið er árangursmælt. Stjórnandi Alice H. Björgvinsdóttir ásamt öðrum fagaðilum Sálfræðiþjónustu Norðurlands.

Tímalengd: Kennt verður 1-2x í viku fyrstu tvær vikurnar, síðan 1x í viku. Alls 11 skipti, 2 klst. í senn, 22 tímar. Eftirfylgdartími um mánuði eftir 10. skiptið.

Verð: 84.000 kr.

___

Langvarandi verkir og núvitund; Úrræðið hentar fyrir fólk með langvarandi verkjavanda og vefjagigt.  Meðferðin miðast að því að ná tökum á daglegu lífi og efla getu til þátttöku á vinnumarkaði, þrátt fyrir verki. Fræðsla er um verkjavanda, hjálplegar leiðir til að efla stjórn og draga úr neikvæðum áhrifum verkja á virkni. Fræðsla um HAM og verkefnavinna heima og í tímum.

Námskeiðið samanstendur af fræðslu, verklegum æfingum og heimavinnu. Leiðbeinendur Sigrún V. Heimisdóttir, sálfræðingur (HAM og verkir), Kristín Elva Viðarsdóttir (núvitundartímar). Öll námskeiðsgögn innifalin. Árangursmælt.

Námskeiðið er alls 12 skipti. Tímasókn 1-2x í viku í 1-1,5 klst. í senn alls 18 klst., eftirfylgdartími um mánuði eftir síðasta hóptímann.

Tímalengd: Verkefna-og fræðslutímar HAM eru 6 skipti og Þátttakendur sækja einnig 6 tíma í núvitund, alls 12 skipti.

Verð 84.000kr.