Grunnnámskeið í hugrænni atferlismeðferð og núvitund -sjálfsefling í endurhæfingu tengt tilfinninga- og/eða stoðkerfisvanda
Á námskeiðinu eru kenndar áhrifaríkar aðferðir til að takast á við tilfinningavanda og/eða stoðkerfisvanda. Námskeiðið inniheldur margvíslega fræðslu, m.a. um kvíða, þunglyndi, verkjavanda og vanda tengt langvarandi álagi eða veikindum. Rætt verður um áhrif veikinda á hugsun okkar og farið yfir hegðunarmynstur sem getur verið að viðhalda vandanum. Einnig verður farið í umræður um svefn, matarræði, hreyfingu og mikilvægi þess að hafa jafnvægi í athöfnum daglegs lífs. Áhersla er á sjálfskoðun einstaklingsins og sjálfseflingu þar sem áhrifaþættir eru kortlagðir og hver og einn lærir að bera kennsl á eigin styrkleika og veikleika ásamt því að kynnast ýmsum leiðum til sjálfseflingar. Unnið verður með sjálfsmynd og áskoranir sem fólk getur þurft að takast á við vegna breyttrar stöðu. Lagt er upp með að kenna þátttakendum ýmis bjargráð, m.a. með aðferðum sem byggja á HAM og núvitund.
Úrræðið ætti að henta flestum sem eru í endurhæfingu. Algengt er að langvarandi veikindi (sama af hvaða toga) hafi áhrif á sjálfstraust, tilfinningalíf og getu til að halda jafnvægi í daglegu lífi. Afleiðingin er lítil trú á eigin getu sem hefur áhrif á viðhorf, hugsunarhátt, hegðun, tilfinningar og líkamleg viðbrögð. Allt eru þetta stórir áhrifaþættir í tengslum við árangur í endurhæfingu.
Markmiðið með námskeiðinu er að kenna einstaklingi að lágmarka neikvæð áhrif veikinda á daglegt líf og styrkja hann í endurhæfingaferli sínu með það að leiðarljósti að efla möguleika á endurkomu til vinnu (óháð vanda og þrátt fyrir verki) og jafnframt að auka lífsgæði og getu einstaklings til að takast á við verkefni daglegs líf.
- Stjórnandi: Sálfræðingar, iðjuþjálfi,
- Árangursmælt.
- 10 skipti
- Verð: 78.000
- Ekki þörf á forviðtali.
- Námskeiðsgögn innifalin.
Sjálfsstyrking; -HAM við lágu sjálfsmati –
líðan – sjálfsþekking – samskipti – samkennd – jákvæð og ábyrg sjálfsmynd
Á námskeiðinu eru kenndar áhrifaríkar aðferðir til að efla sjálfstraust/sjálfsmat og trú á eigin getu. Við eigum öll okkar stundir þar sem okkur skortir sjálfstraust og líður ekki vel með okkur sjálf. Þegar lágt sjálfsálit eða sjálfsmat verður að langtíma vanda hefur það alvarleg áhrif á andlega heilsu okkar sem síðan hefur áhrif á getu okkar til að sinna verkefnum daglegs lífs og kröfum sem vinnumarkaðurinn gerir til okkar.
Námskeiðið byggir á aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar, jákvæðrar sálfræði og samkenndar. Námskeiðið skiptist upp í fræðslu, umræður í tíma og verkefni bæði í tíma sem heima. Tilgangur námskeiðsins er í það minnsta tvíþættur. Í fyrsta lagi að hjálpa einstaklingum að skilja vanda sinn betur, átta sig á hvað viðheldur og þróar hann áfram. Í öðru lagi að kenna nýja gagnlega færni og efla þannig einstaklinginn til að takast á við daglegar áskoranir.
Markmið úrræðis er að auka sjálfstraust og efla trú á eigin getu til að einstaklingur eigi auðveldara með að mæta áskorunum daglegs lífs og takast á við annan tilfinningavanda sem oft fylgir og auka þannig lífsgæði og styðja við endurkomu til vinnu. Á námskeiðinu er einstaklingnum mætt þar sem hann er og raunhæfar kröfur eru gerðar til allra.
- Stjórnandi: Sálfræðingur
- Árangursmælt.
- 8 skipti, alls um 16 klst. (1,5-2 klst í senn).
- Verð: Er 65.000
- Ekki þörf á forviðtali.
- Námskeiðsgögn innifalin.
Að ná tökum á eigin þyngd með aðferðum sálfræðinnar; Námskeið fyrir fólk í ofþyngd eða offitu sem vill ná langtímaárangri í baráttu sinni við aukakílóin. Einstaklingum er kennt að setja sér raunhæf markmið og að ná sátt við líkama sinn þegar ákveðnum árangri er náð. Einnig eru kynntar leiðir til að viðhalda árangri. Þetta er ekki megrunarkúr. Kynntar verða aðferðir sem hjálpa fólki að ná jákvæðum tengslum við mat og farið verður yfir hvernig sálfræðin getur komið með verkfæri og aðferðir sem hjálpa fólki í þessari baráttu. Einnig verður farið yfir hvernig best er að viðhalda árangri en það er oft eitthvað sem margir eiga í erfiðleikum með. Hugræn atferlismeðferð, núvitund, markmiðasetning, jákvætt sjálfstal, fræðsla um mögulegar orsakir offitu er kynnt auk þess sem unnið er með þarfir hvers og eins, t.d. eflingu sjálfstrausts, seiglu, þrautseigju og rýnt er í grunninn að vandanum. Skoðað er hvenær vandinn byrjaði, hvort það tengist einhverju sérstöku og hvað hefur verið reynt hingað til, til þess að ná árangri. Unnið er með það að breyta heilsutengdum venjum og hegðun þannig að árangur náist. Ýmis hagnýt atriði eru einnig kynnt eins og hverjum og einum verður hjálpað að finna þá hreyfingu sem hentar best og er fólki boðið að fara í fyrsta tíma á líkamsræktarstöð með viðkomandi þar sem fólk treystir sér stundum ekki á staðinn. Einnig munu einstaklingar halda matardagbók þar sem fram kemur hvað er borðað og hvenær en inn í þá matardagbók er einnig skráð líðan og aðstæður sem borðað er í.
Stjórnandi Kristín Elva Viðarsdóttir sálfræðingur, aðrir koma að námskeiðinu með sérþekkingu á ákveðnum sviðum.
Tímalengd: 13 tímar og eru ýmist einu sinni til tvisvar í viku. Námskeiðið byrjar með einstaklingsforviðtali þar sem líðan er metin.
Verð: 84.000 kr.
Félagsfælni;
Á námskeiði um félagsfælni eru kenndar áhrifaríkar aðferðir til að takast á við félagsfælni. Í tímum lærir fólk að takast á við það sem veldur kvíða og um leið að stjórna og breyta neikvæðum hugsunum. Tekist er á við óttann í raunverulegum aðstæðum. Að auki er komið inn á félagsfærni, sjálfstraust og margt fleira sem snýr að mannlegum samskiptum.
Markmiðið með námskeiðinu er að hjálpa einstaklingum að draga úr kvíða sínum með það að markmiði að komast aftur til vinnu, auka lífsgæði og efla getu til að takast á við verkefni í daglegu lífi sem og í starfi.
- Stjórnandi sálfræðingur og iðjuþjálfi
- Árangursmælt
- 11 skipti, 1,5-2 klst í senn-Allt að 22 klst.
- 88.000
- Eina námskeiðið þar sem forviðtal er nauðsynlegt. Grunn vandi snýr m.a. að erfiðleikum við að vera innan um aðra og mikilli forðunarhegðun. Því er hópmeðferð mikil áskorun og tengsl við meðferðaraðila því nauðsynleg til að lágmarka brottfall. Einnig er forviðtal notað til að sérsníða verkefni/æfingar að hverjum og einum og hámarka þannig árangur námskeiðsins fyrir einstaklinginn.
- Námskeiðsgögn innifalin.
Streitustjórnun, aftur til vinnu
Streitustjórnun, vellíðan í lífi og starfi
Á námskeiði um streitustjórnun eru kenndar áhrifaríkar aðferðir til að takast á við mikið álag, streitu, kulnum og örmögnun. Námskeiðið inniheldur margvíslega fræðslu, m.a. um streitu og hvernig hún hefur áhrif á hugsun okkar og hegðun, svefn, matarræði, hreyfingu og aðrar athafnir daglegs lífs. Áhersla er á sjálfskoðun og styrkleikar og veikleikar eru skoðaðir og lagt mat á persónulegt og/eða vinnutengt umhverfi. Sálræn og líkamleg einkenni streitu eru skoðuð. Áhrifaþættir eru kortlagðir og hver og einn lærir að bera kennsl á eigin streituvalda ásamt því að kynnast ýmsum leiðum til að takast á við streitu og streituvalda. Áhersla er á útiveru, samveru og hæfilega virkni. Lagt er upp með að kenna þátttakendum ýmis bjargráð, m.a. með aðferðum sem byggja á HAM og núvitund ásamt slökun.
Markmið úrræðis er að draga úr streitueinkennum og ná auknu jafnvægi í daglegt líf með það fyrir augum að einstaklingur komist aftur til vinnu, fái aukin lífsgæði og efli getu sína til að takast á við verkefni í daglegu lífi sem og í starfi.
- Stjórnandi: Sálfræðingur og iðjuþjálfi.
- Árangursmælt
- 12 skipti, 18 klst. (1,0-1,5 klst í senn).
- Verð: 86.000.
- Ekki þörf á forviðtali.
- Námskeiðsgögn innifalin.